Moska, Framsókn og fordómar
Í pistli sem birtist á Vísi í dag bendir formaður Félags frjálslyndra jafnaðarmanna á mikilvægi þess að vanda sig í umræðu um mannréttindi. Eva Baldursdóttir lýsir góðri stöðu sem Íslendingar hafa komið sér í er varðar mannréttindalöggjöf landsins.
Íslendingar hafa almennt verið umburðarlyndir og friðsamir. Við höfum sett okkur stjórnarskrá sem mælir fyrir um að hér ríki trúfrelsi og jafnræði fyrir lögum m.t.t. trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar og litarháttar. Þá hefur fjöldi alþjóðlegra mannréttindasáttmála verið lögfestur svo sem Mannréttindasáttmáli Evrópu og Alþjóðasáttmáli Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Grunnstef þeirra sáttmála er í öllu falli að forsenda frelsis, friðar og réttlætis í heiminum byggi á þeirri viðurkenningu þjóðanna að mennirnir séu jafnir fyrir lögum og þeim sé ekki mismunað.
Loks biðlar hún til stjórnmálamanna, sem hafa mikið vægi í almenningsumræðu, um að vanda orðræðu sína og gæta þess að ala ekki á ótta og hatri.
Það er ábyrgðarhlutverk að bjóða sig fram til þátttöku í stjórnmálum. Gera verður þá kröfu að mannréttindi, sem eru ekki sjálfsögð og eiga uppruna sinn að rekja til ofríkis ríkisvalds og átaka, séu virt. Þess vegna eiga áherslur flokks sem ganga þvert á algild mannréttindi lítið erindi við stjórn borgarinnar.
Pistilinn í heild sinni má lesa hér