Hægri kanturinn


Kampavíns-komminn
tekur ofan fyrir Vigdísi Hauksdóttur, leiðtoga hreyfingarinnar sem berst gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, fyrir að birta þjóðinni með skýrum hætti þá þekkingu á Evrópumálum sem liggur til grundvallar heimssýn samtakanna og afstöðu. Sérstaka athygli vakti þekking þingmannsins og leiðtoga á stöðu eins af þeim aðildarríkjum sem Íslendingar hafa ekki síst litið til þegar kostir og gallar aðildar fyrir litla eyþjóð eru vegnir og metnir.

 

Hópefli á facebook

 

Höfundar greina

Leit
  • A Theory of Justice: Original Edition (Oxford Paperbacks 301 301)
    A Theory of Justice: Original Edition (Oxford Paperbacks 301 301)
    by John Rawls
  • Capital in the Twenty-First Century
    Capital in the Twenty-First Century
    by Thomas Piketty
mánudagur
jún.232014

Moska, Framsókn og fordómar

Í pistli sem birtist á Vísi í dag bendir formaður Félags frjálslyndra jafnaðarmanna á mikilvægi þess að vanda sig í umræðu um mannréttindi. Eva Baldursdóttir lýsir góðri stöðu sem Íslendingar hafa komið sér í er varðar mannréttindalöggjöf landsins.

Íslendingar hafa almennt verið umburðarlyndir og friðsamir. Við höfum sett okkur stjórnarskrá sem mælir fyrir um að hér ríki trúfrelsi og jafnræði fyrir lögum m.t.t. trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar og litarháttar. Þá hefur fjöldi alþjóðlegra mannréttindasáttmála verið lögfestur svo sem Mannréttindasáttmáli Evrópu og Alþjóðasáttmáli Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Grunnstef þeirra sáttmála er í öllu falli að forsenda frelsis, friðar og réttlætis í heiminum byggi á þeirri viðurkenningu þjóðanna að mennirnir séu jafnir fyrir lögum og þeim sé ekki mismunað.

Loks biðlar hún til stjórnmálamanna, sem hafa mikið vægi í almenningsumræðu, um að vanda orðræðu sína og gæta þess að ala ekki á ótta og hatri.

Það er ábyrgðarhlutverk að bjóða sig fram til þátttöku í stjórnmálum. Gera verður þá kröfu að mannréttindi, sem eru ekki sjálfsögð og eiga uppruna sinn að rekja til ofríkis ríkisvalds og átaka, séu virt. Þess vegna eiga áherslur flokks sem ganga þvert á algild mannréttindi lítið erindi við stjórn borgarinnar. 

Pistilinn í heild sinni má lesa hér

mánudagur
jún.162014

Frjálslynd í borgarstjórn

Félag frjálslyndra jafnaðarmanna á fulltrúa í borgarstjórn sem hefur störf í dag. Meðstjórnandi félagsins Kristín Soffía Jónsdóttir er mætt niður í ráðhús á sinn fyrsta borgarstjórnarfund.

Við óskum henni til hamingju með borgarfulltrúasætið og velfarnaðar í sínum störfum.

mynd fengin af visir.is

föstudagur
jún.062014

Ályktun um trúfrelsi, mannréttindi og stjórnmálaumræðu

Á fundi sínum 5. júní 2014 samþykkti stjórn FFJ eftirfarandi ályktun:

Stjórn Félags frjálslyndra jafnaðarmanna átelur forystu Framsóknarflokksins í Reykjavík og á landsvísu fyrir að hafa meðvitað gert það að kosningamáli í nýliðnum borgarstjórnarkosningum hvort úthluta ætti lóð til Félags múslima á Íslandi vegna moskubyggingar.

Stjórn FFJ minnir á ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins um trúfrelsi, og um jafnræði fyrir lögum án tillits m.a. til trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar og litarháttar. Ekki er unnt að kjósa um mannréttindi enda er tilgangur þeirra ekki síst að vernda minnihluta gagnvart meirihlutavilja hverju sinni.

Frjálslyndir jafnaðarmenn vilja stuðla að opnu, frjálsu, fjölbreyttu, alþjóðasinnuðu og umburðarlyndu fjölmenningarsamfélagi; samfélagi þar sem allir fá að njóta sín þótt ólíkir séu. Slíkt samfélag verður aðeins byggt á grunni algildra mannréttinda, réttláts og sanngjarns velferðarþjóðfélags, trausts réttarríkis, almennra leikreglna og virks lýðræðis.

Að höfða til hræðslu og óöryggis gagnvart minnihlutahópum og draga upp fordómafullar myndir af meintum eiginleikum þeirra er ekki sæmandi stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum sem vilja láta taka sig alvarlega og þykja tækir til samstarfs við stjórn sveitarfélaga eða landa.

Stjórn FFJ skorar á Framsóknarflokkinn að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum. Innan flokksins eru vafalaust fjölmargir sem ekki geðjast hin nýja ásýnd hans. Hrósa má m.a. Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra og Hreiðari Eiríkssyni frambjóðanda hans í Reykjavík fyrir að tjá sig afdráttarlaust gegn þessum áherslum fyrir kosningar. Beri forysta flokksins heill og heilsu íslenskrar stjórnmálaumræðu og stöðu lýðræðis og mannréttinda í landinu fyrir brjósti þarf hún að tjá sig með afgerandi hætti og afneita álíka vinnubrögðum í framtíðinni.

Stjórn Félags frjálslyndra jafnaðarmanna


 

þriðjudagur
apr.152014

Hugleiðing um trúfrelsi og aðskilnað ríkis og kirkju

Virðing fyrir mannréttindum og áhersla á félagslegt frjálslyndi, umburðarlyndi og fjölmenningu eru meðal hornsteina frjálslyndrar jafnaðarstefnu.

Trúfrelsi og frelsi frá trú eru grundvallarmannréttindi eins og þau eru skilgreind í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum.

Mannréttindi eru algild og í eðli þeirra liggur að þau má ekki skerða, ekki heldur þótt meirihlutavilji standi til þess.

Frjálslyndir jafnaðarmenn hljóta að styðja jafnan rétt allra til lífsskoðunar, trúar eða trúleysis.

Ég tel þar af leiðandi rökrétt að frjálslyndir jafnaðarmenn leggist gegn því að tiltekið trúfélag njóti sérstakrar stöðu að lögum eða stjórnarskrá. Sú skoðun er óháð verðleikum þess trúfélags sem slíks.

Varðandi aðskilnað ríkis og kirkju má horfa til fordæmis Svía frá árinu 2000.

Ég mun beita mér hér eftir sem hingað til í samræmi við ofangreind sjónarmið í stjórnmálaumræðu og á vettvangi Samfylkingarinnar, og veit að ég á mörg skoðanasystkini í Félagi frjálslyndra jafnaðarmanna og í flokknum.

Þeir sem vilja leggja sitt lóð á vogarskálarnar í þessu efni eru velkomnir í félagið!

 

þriðjudagur
apr.012014

Ný stjórn kjörin á aðalfundi

Aðalfundur FFJ var haldinn 31. mars 2014 á KEX Hostel við Skúlagötu. Mæting var góð og fór fundurinn vel fram. Þar var m.a. samþykkt lagabreyting um að stjórnarmenn yrðu sjö í stað fimm, og varastjórnarmenn jafn margir. Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum hélt Katrín Júlíusdóttir varaformaður Samfylkingarinnar stutt erindi og tók þátt í almennum umræðum.

Á fundinum voru eftirtalin kjörin í stjórn félagsins til næsta aðalfundar:

  • Eva H. Baldursdóttir formaður
  • Dagbjört Hákonardóttir varaformaður
  • Arnar Guðmundsson spjaldskrárritari
  • Vilhjálmur Þorsteinsson yfirféhirðir
  • Baldvin Jónsson meðstjórnandi
  • Haukur Hólmsteinsson meðstjórnandi
  • Kristín Soffía Jónsdóttir meðstjórnandi

Í varastjórn voru eftirtalin kjörin:

  • Ásgeir Runólfsson
  • Gunnar Tryggvason
  • Margrét Sigrún Björnsdóttir
  • Ágúst Ólafur Ágústsson
  • Hilmar Sigurðsson
  • Dóra Magnúsdóttir
  • Guðrún Jóna Jónsdóttir

Skoðunarmaður reikninga var kjörinn Tjörvi Dýrfjörð.

Nýkjörinni stjórn er óskað allra heilla og fráfarandi stjórn þökkuð störfin á liðnu starfsári.

mánudagur
mar.312014

Aðalfundur FFJ

AÐALFUNDUR FFJ er boðaður mánudaginn 31. mars 2014 kl. 19:30 í Gym & Tonic, Kex Hosteli, Skúlagötu 28. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf skv. lögum félagsins.

Strax að aðalfundi loknum kl. 20:15 kemur til okkar Katrín Júlíusdóttir, þingmaður, varaformaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra og iðnaðarráðherra. Katrín mun ræða efni framkominna skuldaleiðréttingafrumvarpa, stöðuna við losun fjármagnshafta og verkefni jafnaðarmanna í stjórnarandstöðu á þessum fyrsta vetri nýrrar ríkisstjórnar. Félagsmenn eru hvattir til að koma og taka þátt í umræðum.

Fundargestir geta pantað kvöldmat af seðli eða keypt veitingar á staðnum.

Um leið og aðalfundur er boðaður viljum við láta aðalfélaga í FFJ vita að á næstu dögum berst í heimabanka þeirra valkvæð krafa um hóflegan stuðning við starf FFJ fyrir árið 2014. Við vonum að sem allra flestir bregðist jákvætt við því virk þátttaka er forsenda öflugs félagsstarfs.

Oft var þörf en nú er nauðsyn á því að rödd frjálslyndrar jafnaðarstefnu nái hljómgrunni í samfélaginu. Rökræðan um framtíð aðildarviðræðna við Evrópusambandið snýst öðrum þræði um sýn okkar á þróun íslensks samfélags og atvinnulífs. Framundan eru svo lykilákvarðanir á borð við ráðstöfun rentunnar af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar og uppgjör búa föllnu bankanna og þar með ráðstöfun þeirra eigna sem þar eru.

Félag frjálslyndra jafnaðarmanna hefur byggt starf sitt alfarið á sjálfboðaliðum og framlögum stjórnarmanna. Nú hefur félagið vaxið og dafnað og er með yfir 800 aðalfélaga sem gerir okkur eitt af stærstu aðildarfélögum Samfylkingarinnar, jafnaðarmannaflokks Íslands.

Mikilvægt er að FFJ rísi undir þeirri ábyrgð og þeim væntingum sem til félagsins eru gerðar og efli enn félagsstarf sitt og málefnavinnu. Til þess óskum við eftir þínum stuðningi.

Með kveðju

f.h. stjórnar Félags frjálslyndra jafnaðarmanna

Arnar Guðmundsson, formaður