Aðalfundur FFJ
AÐALFUNDUR FFJ er boðaður mánudaginn 31. mars 2014 kl. 19:30 í Gym & Tonic, Kex Hosteli, Skúlagötu 28. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf skv. lögum félagsins.
Strax að aðalfundi loknum kl. 20:15 kemur til okkar Katrín Júlíusdóttir, þingmaður, varaformaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra og iðnaðarráðherra. Katrín mun ræða efni framkominna skuldaleiðréttingafrumvarpa, stöðuna við losun fjármagnshafta og verkefni jafnaðarmanna í stjórnarandstöðu á þessum fyrsta vetri nýrrar ríkisstjórnar. Félagsmenn eru hvattir til að koma og taka þátt í umræðum.
Fundargestir geta pantað kvöldmat af seðli eða keypt veitingar á staðnum.
Um leið og aðalfundur er boðaður viljum við láta aðalfélaga í FFJ vita að á næstu dögum berst í heimabanka þeirra valkvæð krafa um hóflegan stuðning við starf FFJ fyrir árið 2014. Við vonum að sem allra flestir bregðist jákvætt við því virk þátttaka er forsenda öflugs félagsstarfs.
Oft var þörf en nú er nauðsyn á því að rödd frjálslyndrar jafnaðarstefnu nái hljómgrunni í samfélaginu. Rökræðan um framtíð aðildarviðræðna við Evrópusambandið snýst öðrum þræði um sýn okkar á þróun íslensks samfélags og atvinnulífs. Framundan eru svo lykilákvarðanir á borð við ráðstöfun rentunnar af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar og uppgjör búa föllnu bankanna og þar með ráðstöfun þeirra eigna sem þar eru.
Félag frjálslyndra jafnaðarmanna hefur byggt starf sitt alfarið á sjálfboðaliðum og framlögum stjórnarmanna. Nú hefur félagið vaxið og dafnað og er með yfir 800 aðalfélaga sem gerir okkur eitt af stærstu aðildarfélögum Samfylkingarinnar, jafnaðarmannaflokks Íslands.
Mikilvægt er að FFJ rísi undir þeirri ábyrgð og þeim væntingum sem til félagsins eru gerðar og efli enn félagsstarf sitt og málefnavinnu. Til þess óskum við eftir þínum stuðningi.
Með kveðju
f.h. stjórnar Félags frjálslyndra jafnaðarmanna
Arnar Guðmundsson, formaður