Hugleiðing um trúfrelsi og aðskilnað ríkis og kirkju
Virðing fyrir mannréttindum og áhersla á félagslegt frjálslyndi, umburðarlyndi og fjölmenningu eru meðal hornsteina frjálslyndrar jafnaðarstefnu.
Trúfrelsi og frelsi frá trú eru grundvallarmannréttindi eins og þau eru skilgreind í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum.
Mannréttindi eru algild og í eðli þeirra liggur að þau má ekki skerða, ekki heldur þótt meirihlutavilji standi til þess.
Frjálslyndir jafnaðarmenn hljóta að styðja jafnan rétt allra til lífsskoðunar, trúar eða trúleysis.
Ég tel þar af leiðandi rökrétt að frjálslyndir jafnaðarmenn leggist gegn því að tiltekið trúfélag njóti sérstakrar stöðu að lögum eða stjórnarskrá. Sú skoðun er óháð verðleikum þess trúfélags sem slíks.
Varðandi aðskilnað ríkis og kirkju má horfa til fordæmis Svía frá árinu 2000.
Ég mun beita mér hér eftir sem hingað til í samræmi við ofangreind sjónarmið í stjórnmálaumræðu og á vettvangi Samfylkingarinnar, og veit að ég á mörg skoðanasystkini í Félagi frjálslyndra jafnaðarmanna og í flokknum.
Þeir sem vilja leggja sitt lóð á vogarskálarnar í þessu efni eru velkomnir í félagið!