Hægri kanturinn


Kampavíns-komminn
tekur ofan fyrir Vigdísi Hauksdóttur, leiðtoga hreyfingarinnar sem berst gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, fyrir að birta þjóðinni með skýrum hætti þá þekkingu á Evrópumálum sem liggur til grundvallar heimssýn samtakanna og afstöðu. Sérstaka athygli vakti þekking þingmannsins og leiðtoga á stöðu eins af þeim aðildarríkjum sem Íslendingar hafa ekki síst litið til þegar kostir og gallar aðildar fyrir litla eyþjóð eru vegnir og metnir.

 

Hópefli á facebook

 

Höfundar greina

Leit
  • A Theory of Justice: Original Edition (Oxford Paperbacks 301 301)
    A Theory of Justice: Original Edition (Oxford Paperbacks 301 301)
    by John Rawls
  • Capital in the Twenty-First Century
    Capital in the Twenty-First Century
    by Thomas Piketty
mánudagur
feb.242014

Tekst að afstýra stórslysi í utanríkismálum?

Ítarleg umræða síðustu ára og skýrslur, m.a. Seðlabanka Íslands,  um valkosti okkar í gjaldmiðilsmálum hafa ítrekað staðfest að þeir eru aðeins tveir: Búa við íslenska krónu, studda gjaldeyrishöftum af einhverju tagi um fyrirsjáanlega framtíð eða stefna að upptöku evru með aðild að Evrópusambandinu. Þá liggur fyrir að líflína okkar til mikilvægustu útflutningsmarkaða landsins er aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu.

Við þessar aðstæður er fullkomið ábyrgðarleysi að útiloka annan þessara valkosta, mögulega til næstu áratuga, með því að slíta aðildarviðræðum við ESB. Sérstaklega þegar haft er í huga að engin áætlun liggur fyrir um hvernig þjóðin ætlar að búa við haftakrónuna. Engin áætlun um uppgjör búa föllnu bankanna hefur verið kynnt. Engin greining hefur farið fram á því hvernig við gætum haldið aðild að innri markaði Evrópu ef við brjótum kerfisbundið gegn ákvæðum EES samningins. Því hefur heldur ekki verið svarað hvernig við getum innleitt veigamikla þætti á borð við samræmdar aðgerðir til að tryggja fjármálastöðugleika. 

Mikilvægt er að hafa í huga að ákvörðun um formleg viðræðuslit Íslands og ESB er ekki ákvörðun sem hægt er að afturkalla eftir hentugleikum. Samþykki allra aðildarþjóða þarf til að hefja aftur aðildarviðræður við Ísland.

 

Alþingi samþykkti að hefja aðildarviðræður að loknum þingkosningum þar sem þær voru eitt aðalmálið og á stefnuskrá drjúgs meirihluta þeirra flokka sem fengu fulltrúa kjörna á þing. Mikilvægast er þó að í þeirri ákvörðun að sækja um aðild og hefja aðildarferlið fólst það skýra fyrirheit að þjóðin fengi undanbragðalaust sjálf að eiga síðasta orðið um það hvort Ísland verði aðili að ESB eða ekki. Aðildarferlið gæti því endað með því að þjóðin kysi sjálf að loka þeirri leið sem felst í aðild að ESB með því að fella fyrirliggjandi aðildarsamning. Sú afdrifaríka ákvörðun væri þá tekin af þjóðinni sjálfri, byggt á bestu fáanlegu upplýsingum, þ.e. sjálfum aðildarsamningnum.

Sú þingsályktunartillaga sem nú liggur fyrir sviptir þjóðina þeim rétti að eiga sjálf síðasta orðið um aðild um fyrirsjáanlega framtíð. Hluti stjórnarþingmanna hyggst í reynd fella óséðan samning fyrir hönd okkar allra. Án greininga á afleiðingunum, án skýrra valkosta, án framtíðarsýnar fyrir íslenskt samfélag og atvinnulíf. Án þess einu sinni að standa við loforð gagnvart eigin kjósendum um að leyfa þjóðinni þó að taka sjálf þessa afdrifaríku ákvörðun um viðræðuslit að óloknum samningi.

Í þessu samhengi er afar haldlítill sá fyrirsláttur forsjárhyggjufólks á Alþingi að þar sem ekki hafi farið fram sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla um upphaf viðræðna þá þurfi hana ekki til að slíta þeim. Fyrir utan umræðurnar í aðdraganda kosninganna 2009 er á þessu tvennu skýr eðlismunur: Með ákvörðun um viðræður var verið að hefja ferli sem endaði á því að þjóðin sjálf stæði frammi fyrir skýrum valkostum og ætti síðasta orðið. Ákvörðun um viðræðuslit sviptir þjóðina valkosti um fyrirsjáanlega framtíð og hún er svipt öllum möguleikum til beinnar aðkomu.

« Áhugaverður fyrirlestur um uppboðsleiðina í sjávarútvegi | Main | FFJ stækkar og dafnar »