Ísland í 31. sæti
Alþjóðaefnahagsráðið, World Economic Forum, setur Ísland í 31. sæti á nýjum lista yfir samkeppnishæfni þjóða. Landið lækkar um eitt sæti á milli ára. "Alþjóðaefnahagsráðið [telur] að þrálátur veikleiki efnahagsumhverfisins og veikur fjármálamarkaður dragi úr samkeppnishæfni landsins," segir í grein vefmiðilsins visir.is. Þá kemur fram í grein á Eyjunni að íslenskt regluverk um erlenda fjárfestingu fái algjöra falleinkunn.
Ritstjórn FFJ telur einsýnt að gjaldeyrishöft og veikur gjaldmiðill skipti þarna meginmáli, ásamt öðru. Hvaða stefnu hefur ríkisstjórnin gagnvart þeim mikilvægu úrlausnarefnum til framtíðar? Eftir rúmlega 100 rólega daga, að undanskildum greftrinum undan afkomu ríkissjóðs á sumarþinginu, bólar enn hvergi á greiningu eða aðgerðum - öðrum en að loka á þann valkost að gerast aðilar að ESB og taka upp evru. Ekki mun slík lokun bæta samkeppnisstöðuna þegar fram í sækir.