Hægri kanturinn


Kampavíns-komminn
tekur ofan fyrir Vigdísi Hauksdóttur, leiðtoga hreyfingarinnar sem berst gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, fyrir að birta þjóðinni með skýrum hætti þá þekkingu á Evrópumálum sem liggur til grundvallar heimssýn samtakanna og afstöðu. Sérstaka athygli vakti þekking þingmannsins og leiðtoga á stöðu eins af þeim aðildarríkjum sem Íslendingar hafa ekki síst litið til þegar kostir og gallar aðildar fyrir litla eyþjóð eru vegnir og metnir.

 

Hópefli á facebook

 

Höfundar greina

Leit
  • A Theory of Justice: Original Edition (Oxford Paperbacks 301 301)
    A Theory of Justice: Original Edition (Oxford Paperbacks 301 301)
    by John Rawls
  • Capital in the Twenty-First Century
    Capital in the Twenty-First Century
    by Thomas Piketty
miðvikudagur
apr.242013

Með EES samninginn á heilanum

Haustið 1992 hóf ég nám við lagadeild Háskóla Íslands. Umræðan um aðild að Evrópska Efnahagssvæðinu var þá í hámarki og sýndist sitt hverjum. Í lagadeildinni voru heitar umræður um samþýðanleika samningsins við stjórnarskrá og prófessor Líndal lá ekki á skoðun sinni frekar enn fyrri daginn „einn daginn verðum við bara dæmd inn í Evrópubandalagið“ sagði hann sífellt og dæsti. Flestir voru sammála um að samningurinn bryti gegn stjórnarskrá og óttuðust afleiðingar fyrir fullveldi landsins. Ég var ein af þeim. En svo staðfesti þingið samninginn, hann tók gildi og þjóðfélagið fór barasta ekki á hliðina heldur urðu einar hinar víðfeðmustu umbætur í lagaumhverfi Íslendinga að veruleika t.d. á sviði neytendaverndar, samkeppni, umhverfisverndar og vinnuréttar.

Í janúar 1997 hóf ég að rita kandídatsritgerð eins og hún hét þá til að ljúka laganáminu. Rannsóknarefnið var ekki af minni endanum; Fiskveiðisamningar ESB á Norður-Atlantshafi skyldi það vera.  Fátt var um upplýsingar um þessa ágætu samninga hér á landi og fetaði ég því í fótspor forferðranna, lagði land undir fót og hélt til Kaupinhafnar til að fræðast betur um efnið.  Einhver sagði mér frá Evrópustofu þar í borg. Hún var til húsa á annarri hæð í húsi steinsnar frá Højbro plads hvar Café Europa hefur staðið eins lengi og ég man eftir mér. Í Evrópustofu þeirra Dana lágu frammi nokkrir bæklingar og fræðsluefni um Evrópubandalagið eins og það hét, aðallega um réttindi fólks til frjálsrar farar, neytendavernd og umhverfismál. Öngvan fann ég hins vegar bæklinginn um fiskveiðisamninga. Vinalegur Dani leyfði mér hins vegar að setjast við tölvu nokkra þar sem uppsettur var aðgangur að gagnagrunni bandalagsins þar sem ég gat leitað að efnivið fyrir ritgerðina. Hann reyndi hvorki að heilaþvo mig um gagnsemi Evrópubandalagsins né spilaði fyrir mig þá níundu. Bauð hins vegar upp á kaffi og fékk sér smók meðan ég var að sýsla í tölvunni. 

Þrátt fyrir að vera nokkuð skeptísk á þetta Evrópubandalag var eitthvað sem heillaði mig við Evrópuréttinn.  Það var eitthvað hressandi við að þjóðréttarskuldbindingar ættu jafnframt að færa borgurum lands tiltekin réttindi sem þeir gætu byggt á fyrir dómstólum. Slík hugsun var nýmæli á Íslandi. Í ágúst 1999 hleypti ég því heimdraganum og fór til náms við Evrópuháskólann í Flórens. Þá var ég þessi sem alltaf talaði um EES samninginn, sem tryggði íslenska hagsmuni svo vel. Eða var kannski eitthvað til í þeirri hugmynd að þátttaka smáríkis í alþjóðlegu samstarfi væri frekar til þess fallin að styrkja fullveldi hennar frekar en að veikja? Hvers vegna lögðust EFTA ríkin gegn því að EES samningurinn fæli í sér bein réttaráhrif og þar með möguleika borgaranna að byggja á honum rétt ef stjórnvöldum varð á í messunni? Þar kom efinn. 

Þegar ung kona hefur lagt stund á Evrópurétt út í löndum liggur beinast við að halda til Brusselborgar. Þangað fór ég haustið 2000 og hóf svo störf hjá Eftirlitsstofnun EFTA, varðhundi EES samningsins. Nú skyldi staðreynt hversu góður þessi samningur væri. Í samskiptum við íslensk stjórnvöld komst ég hins vegar fljótlega að því að þó Alþingi hefði staðfest samninginn formlega voru alls ekki allir í stjórnkerfinu á þeim buxunum.  Þátttakan í EES sýndist konu vera mest byggð á pragmatík, svona eins og þegar áar okkar samþykktu að taka upp kristinn sið en éta samt hrossakjöt og blóta á laun. Þegar einhver löggjöf innri markaðsins hentaði ekki Íslandi var reynt að taka strútinn á stöðuna eða drepa málinu á dreif. Fæstum fannst eitthvað vit í þeirri hugmynd að borgararnir gætu þarna átt einhver réttindi sem gæti verið þess virði að verja.  Sumir pólitíkusar börðust t.d. hatrammlega gegn innleiðingu á löggjöf sem tryggði launþegum aukin réttindi þrátt fyrir að vera í senn yfirlýstir baráttumenn fyrir hagsmunum verkalýðsins. Snilld samningsins reyndist hins vegar felast í því að harðsnúið lið diplómata vann ötullega í því að búa til lausnir til að redda málum án þess að fyrir þeim væri einhver sérstök lagastoð.  Við vorum háð því að maður þekkti mann. 

Á árinu 2002 fengu menn í utanríkisráðuneytinu þá hugmynd að það gæti verið sniðugt að nota tækifærið við inngöngu austantjaldsríkjanna í Evrópusambandið og þar með aðild að EES að semja um tæknilegar uppfærslur á samningnum t.d. þannig að meginmál samningsins endurspeglaði breytingar sem höfðu átt sér stað á sáttmála ESB. Svarið frá viðsemjendum var nei. Vildu menn eitthvað annað en samninginn góða anno 1992 væri mönnum frjálst að sækja um inngöngu í sambandið. Að sama skapi kom ekki til greina að gera breytingar á tveggja stoða kerfinu til að tryggja EFTA ríkjunum aðkomu að nýjum eftirlitsstofnunum ESB.  Þá voru menn líka löngu búnir að gefast upp á svissnesku leiðinni. 

Á þessum tíma átti sér einnig stað viðamikil endurskoðun á samkeppnisreglum innri markaðarins. Til að tryggja samræmda framkvæmd og forðast sértæka beitingu aðildarríkja á reglunum var svo um samið að eftirlitsaðilum eða dómstólum aðildarríkja væri óheimilt að taka ákvörðun í máli sem væri til skoðunar hjá stofnunum ESB. Uppi á Ísalandi hváðu þingmenn, í hverra hópi var núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins. Var þetta ekki brot á stjórnarskrá lýðveldisins og sjálfstæði íslenskra dómstóla? Nú stóðu menn hins vegar frammi fyrir því að annað hvort yrði að innleiða þessar reglur eða hætta þátttöku í EES. Fyrri kosturinn var valinn. Skítt með stjórnarskránna og fullveldið. 

2004 flutti ég heim til Íslands eftir fimm ára útivist. Hér kepptust menn við að græða á daginn og grilla á kvöldin, kaupa verðbréf og fellihýsi og fara í helgarferð til London. Framtíðin var björt og stórveldið Ísland í uppsiglingu. Hver hefur þörf á því að velta fyrir sér framkvæmd EES samningsins, réttindum borgara, fullveldi og stjórnarskrá á slíkum tímum? Og svo kom annus horribilis, Guð blessi Ísland og gjaldeyrishöft. Bentu þá sumir á hið augljósa; kannski væri okkur betur borgið í samfélagi við aðrar Evrópuþjóðir sem fullgildir aðilar að Evrópusambandinu. Sumarið 2009 sátum við systur við tölvuna og fylgdumst með atkvæðagreiðslu á Alþingi og hétum á Strandakirkju í evrum. Strandakirkja fékk evrurnar síðar það sumar.  Hófst þá upp harmakvein málsmetandi manna sem með nýfundinni ást á fullveldinu fundu sambandinu flest allt til foráttu. Gott ef menn átu ekki börn í Evrópusambandinu.

Nú fyrir kosningar 2013 segja spekingar og álitsgjafar að Evrópusambandið sé ekki kosningamál. Kannski er það bara bóla eins og sumir töldu internetið vera á sínum tíma ? Menn vísa gjarnan í fullveldið og sjálfsákvörðunarrétt hinnar íslensku þjóðar. Enginn virðist hins vegar vilja segja upp EES samningnum, nema kannski einstaka krúttlegir frambjóðendur sem telja sig til framsóknarkomma. Samt sem áður kallar EES samstarfið á áleitnar spurningar um fullveldi, framsal ákvarðanatöku til viðsemjenda okkar og ekki síst hvernig okkur hefur tekist að tryggja borgurum þessa lands sambærileg réttindi á innri markaðnum og borgarar ESB ríkja njóta. Kann það að vera svo að aukin réttindi borgaranna vegi upp á móti skerðingu á formlegu fullveldi ? Er það betur til þess fallið að verja fullveldið að sitja við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar, eða taka við tilbúinni löggjöf og innleiða hana með semingi ? Svo var það líka þetta með evruna.
« Misvægi atkvæða og 5% þröskuldurinn | Main | Marslögin tryggðu stöðu Íslands gagnvart erlendum kröfuhöfum »