föstudagur
mar.012013
Atvinnustefna um vöxt og nýsköpun
Inngangur að nýsamþykktri atvinnustefnu jafnaðarmannaflokks Íslands nær vel utan um kjarnann í verkefnum næstu ára:
"Aukin fjárfesting í atvinnulífinu og bætt samkeppnishæfni eru brýnustu verkefni næstu ára. Takast þarf á við þau með stöðugu starfsumhverfi fyrirtækja, stuðningi við nýsköpun í öllum greinum, menntuðu vinnuafli og nýtingu auðlindaarðsins í þágu atvinnuuppbyggingar. Verðmætasköpun er eina leiðin til að vinna á erlendum skuldum þjóðarbúsins og tryggja um leið bætt lífskjör og velferð."
Mestu skiptir að í stefnunni eru leiðirnar vel varðaðar. Þar er verið að vinna í samfellu við áherslur og verkefni liðinna ára eins og ég rakti í skrifum mínum um nýja atvinnustefnu undir lok síðasta árs.
Á fundi Félags frjálslyndra jafnaðarmanna um skýrslu McKinsey um vaxtafæri atvinnulífsins hér á landi kom skýrt fram hve ríkur samhljómur er með stefnu okkar og aðgerðaáætlunum og þeirri greiningu sem þar birtist. Meginmarkmið jafnaðarmanna er að á Íslandi þrífist fjölbreytt atvinnulíf sem skapar verðmæt störf. "Heilbrigð samkeppni í þágu verðmætasköpunar og hagsmuna neytenda, gegn sóun, fákeppni og höftum er lykilatriði í atvinnustefnu jafnaðarmana," segir í stefnu okkar og svo er bent á að sem mest af arði atvinnulífs framtíðarinnar þurfi að verða til á grundvelli viðskiptahugmynda sem standast alþjóðlega samkeppni, og virkjunar hugvits og markaðsþekkingar, í stað þess að auður safnist upp í skjóli úthlutaðrar aðstöðu eða fákeppni með gjaldmiðilinn sem samkeppnishindrun. Efling alþjóðageirans er því forgangsverkefni auk þess að opna samfélagið fyrir fjárfestingum og samkeppni. Þar blasir við að viðræður um aðilda að ESB eru órjúfanlega tengdar því verkefni að tryggja íslensku atvinnulífi betra og samkeppnishæfara starfsumhverfi.
Félag frjálslyndra jafnaðarmanna fagnar því frumkvæði stjórnvalda og hagsmunaaðila í atvinnulífi að hafa þegar komið á samráðsvettvangi um aukna hagsæld hér á landi sem byggir meðal annars á tillögum og ábendingum skýrslu McKinsey.
Á stundum undrast frjálslyndir jafnaðarmenn hve hörð andstaðan er við opnara samkeppnisumhverfi og markaðslausnir á sviðum á borð við verðlagningu og úthlutun veiðiheimilda og það frá öflum sem telja sig markaðssinnuð á hátíðarstundum. Svarið felst líklega í því hve stór hluti af arðinum hér á landi verður til í skjóli aðstöðu og fákeppni. Hér eru miklir hagsmunir í húfi fyrir þá sem búa að aðstöðunni. Meðal annars þess vegna er heildstæð auðlindastefna þýðingarmikið skref til að tryggja sátt og betra starfsumhverfi fyrir auðlindagreinarnar. Tilkall þjóðarinnar til hluta auðlindaarðsins leggur grunn að uppbyggingu í þágu fólks og atvinnulífs um land allt.
Öðrum stundum undrumst við þegar rótgrónir stjórnmálaflokkar sem gefa sig út fyrir umhyggju fyrir öflugu atvinnulífi mæta til leiks og skila nær auðu gagnvart atvinnulífi framtíðarinnar, þ.e. litlu og meðalstóru fyrirtækjunum, sprotunum, hátækni- og hugverkaiðnaðinum. Byggt á vinnu okkar og greiningum síðustu ára ætti ekki að koma mjög á óvart að jafnaðarmenn röðuðu sér í þrjú efstu sætin þegar gestir á nýafstöðnu Tækni- og hugverkaþingi mátu tillögur og framlag þingflokkanna til þeirra hjartans mála.
2013-03-01 16:51