Hvað vilja stjórnvöld með samfélagslega ábyrgð fyrirtækja?
Það eru sannindi fyrir mörgum að velgengni norrænna jafnarmanna í gegnum árin hafi aðallega byggt á þremur grundvallaratriðum: að byggja upp og verja velferðarkerfið, að reka styrka efnahagsstefnu með áherslu á sterkt atvinnulíf, og síðast en ekki síst, að hafa gott samstarf við aðila vinnumarkaðar. Ef eitthvað af þessu hikstar, þá gengur starfið verr en ella – sagan minnir sífellt á þá staðreynd.
Það hefur sett neikvæða mynd á núverandi stjórnarsamstarf að ríkisstjórnin virðist vera í stöðugum erjum við aðila vinnumarkaðarins. Þetta er ekki ný saga og það hlýtur að teljast verulega alvarlegt mál að forysta Alþýðusambands Íslands hafi sakað ríkisstjórnina um brigsl nær allan líftíma hennar. Slík staða væri óhugsandi í öðrum norrænum ríkjum með ríkisstjórn af þessari tegund. Allir jafnaðarmenn hljóta að sjá að þarna er eitthvað verulega mikið að.
Aðstæður eru auðvitað mismunandi milli landa, eitt er mikilvægt hér og annað í einhverju öðru landi. Það kemur þó stundum fyrir að breytingar og áherslur sem þykja mikilvægar í öðrum löndum gleymast algerlega hér, jafnvel þótt það ætti að liggja í augum uppi að stjórnvöld gerðu eitthvað í málinu. Dæmi um mál af þessu tagi er samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja. Eins og oft gerist var íslenskt atvinnulíf seinna til í þessum efnum en var í nágrannalöndunum, en það hefur verið að breytast og mörg íslensk fyrirtæki eru farin að vinna ötullega að þessum málaflokki. Ísland hefur hins vegar enn þá sérstöðu að stjórnvöld virðast hvorki hafa stefnu né markmið í þessum málum eins og reyndin er með ríkisstjórnir hinna Norðurlandanna.
Auðvitað hafa á síðustu misserum heyrst upphrópanir frá einstökum ráðherrum um að hinir og þessir þurfi að sýna samfélagslega ábyrgð við hinar og þessar aðstæður. Þær yfirlýsingar hafa þó fyrst og fremst undirstrikað lítinn skilning ráðamanna á hvað felst raunverulega í hugtakinu samfélagsleg ábyrgð og hvernig unnið er að þeim markmiðum sem í hugtakinu felast. Samfélagsleg ábyrgð felst ekki í góðgerðarstarfsemi, eins og mátti ætla þegar yfirlýsingar ráðamanna voru hvað sterkastar gagnvart fjármálastofnunum. Samfélagsleg ábyrgð felst í mun breiðara starfi sem kannski koma best fram í þeim 10 viðmiðum sem Global Compact samstarf Sameinuðu þjóðanna byggir á (http://www.unglobalcompact.org/aboutthegc/thetenprinciples/index.html).
Ríkisstjórnir annarra Norðurlanda hafa allar sett fram markmið og framkvæmdaáætlanir um samfélagslega ábyrgð í samvinnu við fyrirtæki og aðila vinnumarkaðar. Þetta gerðu t.d. bæði norska og danska ríkisstjórnin 2008 og 2009. Danska stjórnin kom fram með nýja framkvæmdaáætlun fyrr á þessu ári og þá hefur norska ríkisstjórnin sett fram hugmyndir um að setja sérstakan ramma utan um vinnu að þessum málum í norrænu samstarfi 2012-2015. Annars staðar er unnið að þessum málaflokki með virkum hætti og stjórnvöld reyna að hafa áhrif á þróunina. Áherslur dönsku ríkisstjórnarinnar frá því í vor eru í raun endurspeglun á hinum þríþætta grunni sem stefna norrænna jafnaðarmanna hefur hefðbundið byggt á og var bent á í upphafi greinarinnar. Ríkisstjórn Danmerkur vill þannig stefna að því, með góðu samstarfi allra hlutaðeigandi aðila, að hægt sé að skapa sjálfbæran vöxt og samkeppnishæfni með samfélagslega ábyrgum hætti.
Íslensk stjórnvöld voru í einstakri stöðu við upphaf núverandi stjórnartímabils. Stór hluti atvinnulífsins var í miklum kröggum, fjármálakerfið hrunið og eitt mikilvægasta vopnið í baráttunni var aðkoma stjórnvalda með aðstoð AGS. Stjórnvöldum hefði verið í lófa lagið að taka upp einhverjar af þeim áherslum sem nálægar ríkisstjórnir voru með uppi á þeim tíma, t.d. þær dönsku og norsku. Möguleikar stjórnvalda að aðkomu að atvinnulífinu hafa væntanlega aldrei verið meiri en á þessum tíma. Hér er ekki verið að tala um skattaálögur eða þjóðnýtingar heldur aðra mýkri þætti sem snúa að starfsemi fyrirtækja. T.d. hefði mátt stuðla að meiri upplýsingaskyldu stærstu fyrirtækja og fyrirtækja sem eru skráð í kauphöll. Það hefði mátt hvetja og aðstoða fyrirtæki til þess að breyta starfsháttum í átt til opnari starfshátta og betra umhverfis. Danska ríkisstjórnin hefur t.d. hvatt og stutt fyrirtæki þar í landi til þess að leita inn í Global Compact samstarfsvettvang Sameinuðu þjóðanna, en sá vettvangur snýst um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Þarna voru því góðir möguleikara til þess að koma upp jákvæðu og frjóu samstarfi við fyrirtæki og aðila vinnumarkaðar í mikilvægum málaflokki. Því miður verður þó að segja að áhugi stjórnvalda hér á landi hefur verið mun minni en í nágrannalöndunum í þessum málaflokki.
Þróunin fer þó hægt og rólega í rétta átt á vettvangi fyrirtækjanna sjálfra. Þá eru ýmsir aðrir að hugsa í sömu átt. Þar má t.d. nefna hugmyndir og tillögur sem hafa komið fram í aðdraganda þings ASÍ þar sem lífeyrissjóðirnir eru hvattir til þess að taka upp starfshætti sem fara saman með samfélagslegri ábyrgð og þá eru þeir einnig hvattir til þess að taka þátt í starfi innan Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar. Það væri þó mjög jákvætt ef hægt væri að vinna að þessum málum í samstarfi allra aðila og þar er kröftug aðkoma stjórnvalda mikilvæg.