Nýsköpun í verki
Velmegun okkar Íslendinga byggir að miklu leyti á öflugum útflutningi. Þrjár helstu stoðir hans hvíla á nýtingu náttúruauðlinda – fiskur er dregin úr sjó, orkufrekur iðnaður nýtir raforku sem við vinnum úr jarðvarma eða fallvötnum, og ferðaþjónustan á allt sitt undir víðernum og náttúrufegurð. Þannig verður vandasamt að stækka þessar þrjár stoðir útflutningsins mikið, enda náttúrulegar takmarkanir til staðar. Vaxtarbroddur íslensks útflutnings er því að finna í fjórðu stoðinni sem nefndur er hugverkageirinn. Þar eru fyrirtæki eins og Össur, Marel og CCP – fyrirtæki sem byggja viðskiptatækifæri sín á hugviti, og tækniþekkingu starfsfólksins.
Þar sem náttúrulegar takmarkanir ráða miklu um vöxt þriggja stoða er mikilvægt að hlúa vel að fjórðu stoðinni því þangað ætlum við að sækja verðmætin og störfin fyrir kynslóðir framtíðarinnar. En þá þarf að bæta aðbúnað fyrirtækjanna t.d. með upptöku nýrrar myntar, afnámi hafta og lægri fjármagnskostnaði. En umsókn að ESB er ekki eina skrefið sem tekið hefur verið á kjörtímabilinu. Ríkisstjórn jafnaðarmanna átti frumkvæðið að lögum um skattaívilnanir vegna kostnaðar við þróun og rannsóknir innan nýsköpunarfyrirtækja. Áætlað er að hundruðir milljóna renni til efnilegustu fyrirtækja landsins í gegnum þetta kerfi á næsta ári. Þá verða verður í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 sérstaklega aukið í framlög í rannsóknar- og tæknisjóði uppá 1,3 milljarða króna og verður framlagið því 2,8 milljarðar alls. Auk þess verður þess áfram gætt að tekjuskattur fyrirtækja á Íslandi verði með þeim lægstu í Evrópu en þar er Ísland í sjötta sæti af 34 ríkjum innan OECD.
En við eigum ekki að láta staðar numið. Við hljótum að vilja stíga skrefið til fulls og innleiða skattaafslætti vegna hlutabréfakaupa í nýsköpunar – og rannsóknarfyrirtækjum en slíkt gerir fyrirtækjunum betur kleift með að nálgast fjármagn til uppbyggingar í upphafi rekstrar. Þannig vilja jafnaðarmenn sýna í verki stuðning við nýsköpunar- og sprotaumhverfi á Íslandi. Það skiptir máli hverjir stjórna.