Til hvers er félag frjálslyndra jafnaðarmanna?
Jafnaðarstefnan á sér langa og merka sögu. Þar sem stjórnmálahreyfingar hennar voru áhrifamestar á síðustu öld var lagður grunnur að þeim öflugu velferðar- og jafnréttissamfélögum sem eru jafnframt meðal samkeppnishæfustu samfélaga heims. Félag frjálslyndra jafnaðarmanna, FFJ, vill eiga málefnalega samræðu um framtíðarsýn og uppbyggingu samfélags - með tvíþættri áherslu frjálslyndra jafnaðarmanna á jöfnuð, velferð og lífsgæði annars vegar og verðmætasköpun byggða á öflugu atvinnulífi, athafnafrelsi og alþjóðaviðskiptum hins vegar.
FFJ var upphaflega stofnað árið 1986 þegar Bandalag jafnaðarmanna gekk til liðs við Alþýðuflokkinn. FFJ á aðild að stjórnmálahreyfingu jafnaðarmanna á Íslandi, Samfylkingunni, enda mikilvægt að efla tengslin við alþjóðahreyfingu jafnaðarmanna – ekki síst systurhreyfingar á hinum Norðurlöndunum.
Við leggjum áherslu á að bjóða öllum að fylgjast með starfi FFJ, óháð flokksaðild, enda er markmiðið með starfi félagsins að bera fram grunngildi og lausnir jafnaðarstefnunnar og hafa þannig áhrif á stjórnmálin. Mikilvægt er að gefa fólki tækifæri til að hafa áhrif og móta samfélag sitt. Við í FFJ trúum því að í stjórnmálum sé það styrkur hugmynda og gilda sem ráði miklu um þau áhrif sem hægt er að hafa, hvort sem er á starf stjórnmálahreyfinga eða stjórnmálin almennt.
Grunnstefnu FFJ má finna á flipanum: Hver erum við? á aðalsíðunni.
Við bjóðum alla frjálslynda jafnaðarmenn velkomna til samstarfs.