Fundargerð aðalfundar 14. nóvember 2012
Aðalfundur Félags frjálslyndra jafnaðarmanna var haldinn að Laufásvegi 45, Reykjavík, þann 14. nóvember 2012 kl. 19:00. Boðað var til fundarins í tölvupósti til félagsmanna, á fésbókarsíðu félagsins og á vef þess.
Arnar Guðmundsson formaður setti fundinn og var kjörinn fundarstjóri. Hann flutti skýrslu stjórnar. Kom þar fram að 8 opnir fundir og félagsfundir voru haldnir á starfsárinu. Félagsmenn með fullri aðild eru nú yfir 230 og hefur fjölgað talsvert. Á fésbókarsíðu félagsins eru 272 velunnarar þess. Á starfsárinu var opnaður vefur félagsins, www.ffj.is, og nýtt merki þess tekið í notkun.
Í forföllum gjaldkera gerði Arnar jafnframt grein fyrir fjármálum félagsins en rekstur þess er afar einfaldur í sniðum og skuldir engar.
Ekki komu fram athugasemdir við skýrslur stjórnar og gjaldkera og voru þær samþykktar.
Eva H. Baldursdóttir lagði fram tillögu f.h. stjórnar um lagabreytingu þess efnis að varastjórnarmenn yrðu fimm í stað þriggja. Var sú tillaga samþykkt samhljóða.
Aðalstjórn félagsins gaf öll kost á sér til endurkjörs og voru ekki fleiri framboð á fundinum. Var stjórnin því rétt kjörin án atkvæðagreiðslu. Í henni sitja Arnar Guðmundsson, Anna Sigrún Baldursdóttir, Eva H. Baldursdóttir, Gunnar Tryggvason og Vilhjálmur Þorsteinsson.
Í varastjórn lá fyrir tillaga um þau Ágúst Ólaf Ágústsson, Dagbjörtu Hákonardóttur, Hilmar Sigurðsson, Margréti S. Björnsdóttur og Tjörva Dýrfjörð. Ekki komu fram fleiri tillögur og var varastjórnin því rétt kjörin án atkvæðagreiðslu. Úr varastjórn gengur Guðný Hrund Karlsdóttir og eru henni færð þakkir fyrir störf sín í þágu félagsins. Ný í varastjórn eru þau Ágúst Ólafur, Dagbjört og Hilmar.
Skoðunarmaður reikninga var kjörinn Baldvin Jónsson.
Fundurinn fól stjórn félagsins umboð til að innheimta valkvæð félagsgjöld samkvæmt nánara fyrirkomulagi sem stjórn ákveður.
Fleira var ekki gert og var fundi slitið um kl. 19:40.
Fundargerð tók saman Vilhjálmur Þorsteinsson, ritari.