Samræða við Göran Persson þriðjudaginn 27. nóvember
Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur þekkst boð Félags frjálslyndra jafnaðarmanna um að eiga við okkur samræðu um jafnaðarstefnuna, stöðu hennar og framtíðarhorfur. Samræðan fer fram í Norræna húsinu, þriðjudaginn 27. nóvember og hefst kl. 15 með inngangsorðum Perssons. Síðan mun hann svara fyrirspurnum og ræða við fundarmenn til kl. 16:30. Fundurinn er opinn öllum áhugasömum.
Persson kemur til fundar við frjálslynda jafnaðarmenn að loknum fyrirlestri sem hann mun halda í Háskóla Íslandi sama dag milli kl. 12 og 14 um stöðuna í Evrópu, heimsmálunum og tækifæri Íslands. Upplagt er að ræða áfram á fundi FFJ það sem fram kemur í fyrirlestrinum.
Persson er okkur jafnaðarmönnum vel kunnur, en hann var forsætisráðherra Svíþjóðar í 10 ár samfleytt til ársins 2006, og þar áður fjármálaráðherra í 2 ár. Hann hefur af mikilli reynslu að miðla, ekki síst af málefnum sem nú eru efst á baugi í íslenskum stjórnmálum:
- Sem fjármálaráðherra tókst honum að draga verulega úr hallarekstri ríkissjóðs með blandaðri leið skattahækkana og niðurskurði.
- Svíar samþykktu inngöngu í Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1995 í hans tíð sem fjármálaráðherra.
- Undir hans forsæti tóku Svíar stefnu á upptöku evrunnar í gegnum EMU samstarfið, en þeirri leið var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2003.
Þetta og fleira til getum við rætt við Persson í óformlegu og léttu spjalli.
Stjórn Félags frjálslyndra jafnaðarmanna