Vont er þeirra ránglæti, verra er þeirra réttlæti
Þegar ég festist í innviðum internetsins, athugasemda á DV.is, fésbókarflæðis og fréttaflutnings - sem er á svo slæmu plani að menn ættu að skammast sín - líður mér eins og ég búi í einræðisríki fáránleikans. Hér svelti menn, hafi ekki vinnu og varla þak yfir höfuðið. En gott fólk, ekkert er jafn fjarri lagi.
En þetta er ekki bara á netinu - í jólafögnuðum og ýmsum mannfundum - hef ég átt í mörgum kokteilsamræðum þar sem málin byrja á gríni um bleyjur, ofurálögur, skattpíningu, vonda ESB og ríkisstjórnina í ruglinu. Ég tek stundum þátt og fussa aðeins með - bæti í stílinn - bara svona af því að ég er eðli málsins samkvæmt ekki sammála öllu. Það er aldrei þannig.
En verum raunsæ. Hér er ekkert Kambódíu nýaldar gervi-lýðræði, þar sem grunn innviðir eru ekki til staðar og hér hafa svo mörg réttlætisskref verið stiginn til uppgjörs.
Mýmargt hefur verið gert til að spasla í óréttlætistillfinningu almennings, sbr.:
- Embætti umboðsmanns skuldara sett á laggirnar (löngu komið t.d. í Noregi).
- Sérstakur saksóknari stofnaður til að leita réttlætis vegna efnahagsbrota.
- Landsdómur settur af stað.
- Rannsóknarskýrsla Alþingis unnin.
- Skuldaaðgerðir t.d. auknar vaxtaniðurgreiðslur, 110% leiðin, sértæk skuldaaðlögun, greiðsluaðlögun og svona mætti lengi lengi telja.
- Staðinn var vörður um velferðarkerfið að því marki sem unnt var - og er það með eindæmum að ekki hafi verið meiri titringur í samfélaginu en raun bar vitni, t.d. með verkföllum og uppsteyt.
Þá er ríkissjóður nú nánast hallalaus. Jú það hefur kostar auknar álögur á okkur öll, en það kemur í veg fyrir að við séum að rogast með halla ríkissjóðs og láta framtíðina greiða fyrir, mína kynslóð og þau sem á eftir koma sem eiga það ennþá minna skilið. Þá fer atvinnuleysi minnkandi og hagvöxtur er glimrandi miðað við allt og allt.
Ekki nóg með það, heldur hefur áralöngu óréttlæti útgerðarmanna nú verið aflétt með tilkomu veiðileyfagjalds - þar sem loksins loksins þarf útgerðin að skila hluta arðsins til baka fyrir að veiða eign okkar allra. Hingað til hefur hún aðeins farið í vasa útgerðarmanna sem græða slíkar formúur að mig sundlar við tilhugsunina.
Þá er verið að reyna skapa vettvang fyrir hlutlægar og gegnsæjar reglur. Að taka ákvarðanir ekki handahófskennt heldur á grunni raunverulegrar stefnumótunar og sérfræðivinnu. Gott dæmi þar um er rammaáætlun sem verður kláruð á þingi 14. janúar. Vilja menn fara aftur í handvaldar geðþóttaákvarðanir?
Hér er ótalin sú gríðarlega mikla vinna sem hefur verið lögð í nýja stjórnarskrá - sem betrumbætir og skýrir stjórnskipan landsins - á grunni þingræðis- og þinghefðarinnar. Og nýja stjórnarskráin er svo sannarlega betri fyrir almenning heldur en sú gamla - þó hún sé kannski ekki orðin fullkomin enn.
Gott fólk! Hvaða hula er dregin fyrir augu almennings hér í landi veit ég ekki. En vanþakklætið er oft á tíðum slíkt að manni sundlar og verkjar. Öll verkefnin hafa hins vegar ekki verið kláruð en það eru ómennskar kröfur að leggja á herðar fólks að hægt sé að vinna meira en síðustu þrjú og hálft ár bera með sér!
Það sem þarf að horfa í á næstu árum er a.m.k. þetta:
- Breyting á verðtryggða kerfinu.
- Klára skuldaúrvinnsluna til fulls í anda jöfnuðar.
- Gjaldmiðilinn.
- Samningaviðræður við ESB.
Við verðum að vera raunsæ og sanngjörn í umfjöllun okkar. Ég treysti þeim best sem vilja halda áfram á þerri vegferð sem hafin er. A.m.k tala staðreyndirnar sínu máli þó fáir í þjóðfélaginu geri slíkt hið sama, ef marka má internetið.