Kreddur frjálshyggjunnar og hreintrúar-hægrisins
Um daginn var staddur hér á landi hagfræðingurinn Ha-Joon Chang að kynna bók sína 23 atriði um kapítalisma sem þér hefur ekki verið sagt frá. Hann kom m.a. fram í Silfri Egils, í athyglisverðu viðtali. Ha-Joon, sem kennir við Cambridge-háskóla, bendir á að margar af kreddum og kennisetningum kapítalisma og frjálshyggju virki engan veginn í praxís, í raunheimum - gögn og rannsóknir sýni það einfaldlega. Heimurinn sé flókinn og í gráskala fremur en svart/hvítur. Til að ná árangri þurfi stefna og aðgerðir stjórnvalda þurfi jafnan að vera pragmatískar, raunsæjar og "blandaðar", fremur en eftir spori "hreinnar" hugmyndafræði.
Þetta vita reyndar flestir stjórnmálamenn, eða komast a.m.k. að þegar þeir setjast í valdastóla. Þá geta komið upp einkennilegar þversagnir og árekstrar milli hinnar boðuðu "hreinu" hugmyndafræði annars vegar og veruleikans hins vegar.
Afdrifaríkt dæmi um þetta er gríðarlegur vöxtur ríkisútgjalda Bandaríkjanna í valdatíð George Bush yngri. Hugmyndafræðin bannaði reyndar hækkun skatta til móts við útgjöldin, en niðurstaðan varð geigvænlegur fjárlagahalli og skuldasöfnun - sem Bandaríkin hafa ekki bitið úr nálinni með ennþá.
Annað dæmi blasir nú við á Íslandi. Svo merkilegt sem það kann að hljóma, fjölgaði ríkisstarfsmönnum hér á landi jafnt og þétt í tíð hægri stjórna fram til ársins 2007 - en þeim hefur síðan farið fækkandi í tíð vinstri stjórnarinnar eftir hrun.
Loks má nefna að nú er stjórn jafnaðar- og vinstri manna að leggja fram fjárlög 2013 sem eru nánast hallalaus. Því hefðu fáir trúað veturinn 2008-9, eftir að spilaborg loftbóluhagkerfisins og korktappakrónunnar féll, halli ríkissjóðs fór í þriðja hundrað milljarða og dómsdagsspámenn óðu uppi.
Hugmyndafræðin segir eitt, en aðgerðirnar annað þegar á hólminn er komið - eins og Ha-Joon Chang dregur fram í bók sinni. Eða með öðrum orðum: Merkin sýna verkin.