Á fiskurinn að bíða til næsta kjörtímabils?
Eins og kunnugt er lagði ríkisstjórnin fram tvö frumvörp sem tengjast stjórn fiskveiða á síðasta þingi.
Annað þeirra var um veiðigjald, þ.e. að útgerð og fiskvinnsla greiði tiltekið hlutfall af auðlindarentunni í ríkissjóð fyrir afnot af hinni sameiginlegu auðlind. Það frumvarp var samþykkt sl. vor og er einn af stærstu sigrum ríkisstjórnarinnar til þessa.
Hitt frumvarpið var gjarnan nefnt "stóra frumvarpið" og fjallaði um hvernig gefin yrðu út nýtingarleyfi til 20 ára til núverandi kvótahafa. Nýtingarleyfin veita áfram rétt til tiltekinnar hlutdeildar í heildarafla á Íslandsmiðum ár hvert. Að hluta átti síðan að færa aflaheimildir yfir í pott og selja þær árlega á kvótaþingi. Í pottinn færi tiltekið (lágt) hlutfall af aflahlutdeildum sem framseldar yrðu milli útgerða, plús hluti af aukningu sem vonandi verður í leyfðum heildarafla á komandi árum. Þetta "stóra frumvarp" kláraðist ekki á vorþinginu. Því er kvótakerfið sem slíkt enn í gildi í óbreyttri mynd á fiskveiðiárinu sem hefst 1. september nk., nema hvað veiðigjaldið kemur inn eins og áður sagði.
Frjálslyndir jafnaðarmenn, og Samfylkingin, hafa viljað fara tilboðsleið, sem stundum er kölluð fyrningarleið. Hún felur í sér að aflahlutdeildir eru fyrndar smám saman og ganga til Auðlindasjóðs f.h. þjóðarinnar og ríkisins í umboði hennar. Auðlindasjóður býður hlutdeildirnar svo upp reglulega, til hagkvæmrar tímalengdar í senn. Jón Steinsson hagfræðingur og Þorkell Helgason stærðfræðingur hafa m.a. sett fram prýðilegar tæknilegar útfærslur á þessari leið. Með henni greiðir útgerðin (og fiskvinnslan) nákvæmlega það verð fyrir aflahlutdeildirnar sem hún ákveður sjálf - í frjálsri samkeppni og með fullu jafnræði.
"Stóra frumvarpið" var ekki nægilega gott skref í þessa átt. Það bindur nýtingarleyfin í of langan tíma og gætir ekki jafnræðis svo viðsættanlegt sé. Þá ber að hafa í huga að nú er til umræðu og afgreiðslu frumvarp að nýrri stjórnarskrá lýðveldisins þar sem áskilið er að náttúruauðlindir í þjóðareigu verði aðeins leigðar til hóflegs tíma í senn á jafnræðisgrundvelli og komi fullt verð fyrir. Loks eru ýmis önnur stórmál sem ríkisstjórnin hyggst leggja fyrir Alþingi og fá afgreidd fyrir kosningar, en vinnutími þingsins er af skornum skammti.
Það er því að mínu mati hyggilegt að fresta afgreiðslu "stóra frumvarpsins", bíða eftir afdrifum nýju stjórnarskrárinnar og taka málið aftur upp á nýju kjörtímabili. Þá yrði það leyst eftir atvikum í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar, svör kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október nk. um auðlindir í þjóðareigu, og nýja auðlindastefnu sem unnið er að.
Samfylkingin hefur mikla sérstöðu í auðlindamálum og á að koma þar fram af fullri einurð í þágu almannahagsmuna. Þessu stóra hagsmunamáli þarf að lenda þannig að jafnaðarmenn geti verið stoltir af til frambúðar.