Ný hugsun í atvinnumálum
Öflug atvinnuþróun er eitt brýnasta verkefni jafnaðarmanna á komandi
kjörtímabili og áhrifamesta leiðin til að skapa fleiri atvinnutækifæri. Sókn
í atvinnumálum verður að byggja á aukinni menntun, rannsóknum og
þróunarstarfi með stuðningi einfalds og skilvirks stoðkerfis. Þá verðum við að efla og styðja einyrkja, litlu og meðalstóru fyrirtækin, og gera starfsumhverfi þeirra hagfelldara og auðveldara. Þau þurfa að fá aukin tækifæri og stuðning við nýsköpun og þróunarstarf. Með áherslu á stuðning við smáu fyrirtækin í landinu sköpun við raunhæfan valkost við stóriðjustefnuna og stuðlum að grænu og sjálfbæru hagkerfi.
Aukin þekking og gjöfular náttúruauðlindir í þjóðareigu eru grunnur að frekari velferð, jöfnuði og jafnræði fólksins í landinu. Auðlindirnar og náttúruna eigum við að umgangast af virðingu og í samræmi við þær áherslur sem lagðar eru í drögum að Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda. Við getum ekki leyft okkur að leysa tímabundin atvinnumál með óafturkræfum inngripum í náttúru landsins. Allar fyrirætlanir um stórar virkjanir verða að byggjast á traustum rannsóknum og skynsamlegri nýtingu orkunnar, öllum landsmönnum til hagsbóta. Allar stóriðjur í landinu eru í eigu erlendra aðila og aðeins hluti arðsins verður því eftir í landinu.
Samstaða og samheldni þjóðarinnar er grunnur að góðu samfélagi. Í landinu býr ein þjóð og höfuðborg og landsbyggð eru tengd órjúfanlegum böndum sem ekki má slíta í sundur. Þess vegna á atvinnuuppbyggingin að vera í samstarfi aðila á höfuðborgarsvæðinu og utan þess og ekki líta á þá sem aðskilda aðila í þessu efni. Í atvinnumálunum eigum við að stefna að náinni og gagnkvæmri samvinnu við önnur Evrópuríki þannig að við nýtum okkur reynslu þeirra og þekkingu, og miðlum af okkar. Samstaðan styrkir okkur í samvinnu við aðrar þjóðir og veitir okkur kjark til að takast á við verkefni framtíðarinnar, bæði hér innanlands og erlendis.