Kaflaskil
Á vormánuðum verða kaflaskil. Um leið og einn farsælasti forsætisráðherra þjóðarinnar hverfur af vettvangi stjórnmálanna og nýr leiðtogi fer fyrir hreyfingu íslenskra jafnaðarmanna í kosningum, eru verkefni og áherslur stjórnvalda að breytast. Til að standa undir velferð og góðum lífskjörum þarf að ýta undir aukna fjárfestingu í atvinnulífinu og hvetja til nýsköpunar.
Rétt eins og það var verkefni jafnaðarmanna að stöðva skuldasöfnun vegna hrunsins og ná jöfnuði í ríkisfjármálum án þess að taka niður öryggisnet samfélagsins, er mikilvægt að áherslur jafnaðarmanna verði ríkjandi við uppbygginguna. Í því sambandi er nærtækast að benda á Norðurlöndin sem fyrirmynd. Þar hafa jafnaðarmenn lengstum leitt uppbyggingu þeirra samfélaga sem teljast hvað samkeppnishæfust í alþjóðlegum samanburði. Það er beinlínis vegna þeirra öflugu velferðar-, heilbrigðis- og menntakerfa sem þau búa að, samhliða áherslu á athafnafrelsi og samkeppni í atvinnulífinu. Samfélagsleg ábyrgð og samhengi milli réttinda og skylda er lykillinn að árangri.
Grettistak Jóhönnu
Auðvelt er að færa rök fyrir því að enginn hafi verið hæfari en Jóhanna Sigurðardóttir til að takast á við það vandasama verkefni að deila út byrðunum sem hrun fjármálakerfisins lagði á þjóðina, þannig að bæði velferðarkerfinu og hinum tekjulægstu væri hlíft eins og kostur er. Ganga þurfti í gífurlegan og sársaukafullan niðurskurð ríkisútgjalda og öflun tekna með skattheimtu. Við slíkar aðstæður er auðvelt að gera mistök, hvort sem er að fórna hagsmunum þeirra sem veikast standa með aðför að velferðarkerfinu, eða kæfa vaxtar- og nýsköpunarmátt atvinnulífsins með of þungum álögum.
Lofið sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur uppsker nær einróma frá þeim sérfræðingum, sem horfa til Íslands með hlutlausum augum gestsins eða rannsakandans, stafar ekki síst af því að tekist hefur að feta vandrataðan meðalveg. Reynsla Jóhönnu Sigurðardóttur og persónuleg staðfesta áttu ekki lítinn þátt í að aldrei var hvikað frá grundvallaratriðunum, sama hvað andstreymið virtist mikið.
Næstu skref og ný forysta
Innan hreyfingar jafnaðarmanna hefur eðlilega verið lifandi og gagnrýnin umræða um framangreint jafnvægi og hvort of langt sé gengið í aðra hvora áttina. Félag frjálslyndra jafnaðarmanna og fulltrúar þess hafa verið málsvarar þess að gæta að þrótti atvinnulífsins til verðmætasköpunar, enda undirstaða velferðarinnar til framtíðarinnar.
Nýrrar forystu jafnaðarmanna og nýrrar ríkisstjórnar að loknum kosningum bíður það verkefni að byggja á þeim grunni sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur lagt. Næstu skref eru að örva fjárfestingu og nýsköpun í atvinnulífinu. Jafnaðarmenn eru ekki talsmenn hinna stóru ríkislausna eða útdeilingar gæða til útvalinna, heldur góðra skilyrða til rekstrar og samkeppni, almennra hvata og samkeppnissjóða sem styðja hugvit og nýsköpun í öllum atvinnugreinum. Svör við grundvallarspurningum á borð við framtíðarfyrirkomulag gjaldmiðilsmála og sambandið við okkar mikilvægustu markaðssvæði skipta höfuðmáli. Framsækið atvinnulíf þarf einnig að styðjast við öflugt menntakerfi, rannsóknir og þróun.
Á þessari braut verða fyrstu skref nýrrar forystu stjórnmálahreyfingar jafnaðarmanna í atvinnumálum. Sem betur fer búum við svo vel að eiga frambærilega einstaklinga, félaga og stuðningsmenn úti í samfélaginu sem ráða vel við þetta verkefni.