Fullrætt stjórnarskrárákvæði
Ein af tillögum stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands er ekki aðeins afar brýn fyrir þjóðarhagsmuni, heldur er hún jafnframt sú tillagnanna sem hefur verið rýnd og rædd í hörgul á undanförnum áratugum - svo varla er nokkru við að bæta. Hér er átt við ákvæðið um þjóðareign á auðlindum. Þessi eina breyting væri nóg til að fá undirritaðan til að mæta á kjörstað og samþykkja. Ég hvet alla, sama hve efins þeir kunna að vera um einstakar aðrar tillögur, til að birta löggjafarsamkomunni hug sinn í verki hvað þetta sérstaka mál varðar.
Í gagnmerkri skýrslu Auðlindanefndar frá árinu 2000 er að finna ítarlega umfjöllun og tillögu um stjórnarskrárákvæði um þjóðareign á auðlindum. Hin þverpólitíska auðlindanefnd var kosin á Alþingi í kjölfar þingsályktunar árið 1998 og hafði skv. ályktuninni það verkefni að fjalla um ,,auðlindir sem eru eða kunna að verða þjóðareign". Formaður hennar var Jóhannes Nordal. Til grundvallar skýrslu nefndarinnar lágu ítarlegrar greinargerðir fræðimanna á hinum ýmsu sviðum sem tengdust verkefni nefndarinnar. Nefndin fjallaði m.a. ítarlega um gjaldtöku fyrir nýtingu auðlinda í eigu þjóðarinnar. Eitt af þremur meginmarkmiðum slíkrar gjaldtöku var að mati nefndarinnar "að tryggja þjóðinni sýnilega hlutdeild í þeim umframarði (auðlindarentu) sem nýting auðlinda í þjóðareign skapar."
Í skýrslu Auðlindanefndar er fjallað um þjóðareignarrétt sem nýtt form eignarréttar. Þar er leitað fyrirmyndar í ákvæðum Þingvallalaga um þjóðareign á landi þjóðgarðsins. Þarna er fjallað um þau álitaefni sem nú eru tínd til sem rök fyrir því að þjóð geti ekki átt eign og þeim svarað efnislega. Fram kemur að þar sem þjóðin er ekki lögaðili og því ekki bær til að vera eigandi í sama skilningi og ríkið, þá þurfi að koma skilmerkilega fram að eignarréttarheimildirnar í þessu nýja eignarformi verði í höndum handhafa löggjafar- og framkvæmdarvalds sem fari með þær í umboði þjóðarinnar. Munurinn á þessu nýja eignarformi og hefðbundnum fullveldisrétti ríkisins felst í að þjóðareign getur ríkið ekki framselt varanlega, og hvorki einstaklingar né lögaðilar geta eignast þar beinan eignarrétt, t.d. með hefð. Loks setur Auðlindanefnd fram tillögu að orðalagi ákvæðis um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá sem er efnislega samhljóða því sem nú liggur fyrir í tillögum stjórnlagaráðs.
Sé farið enn lengra aftur má finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá 1995 eftirfarandi stefnumörkun: "Stefnt er að því að festa í stjórnarskrá ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar". Þetta var ítrekað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar sömu flokka árið 2003. Fjölmörg dæmi mætti tína til um víðtæka samstöðu, a.m.k. í orði kveðnu, um þjóðareign auðlinda. Lögin um stjórn fiskveiða frá 2006 hefjast á því að lýsa nytjastofna á Íslandsmiðum ,,sameign þjóðarinnar." Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2005 samþykkti í ályktun: "Verði ákvæði um þjóðareign á auðlindum sett í stjórnarskrá skal gæta jafnræðis varðandi allar auðlindir í þjóðareigu."
Og nú erum við stödd með einstakt tækifæri til að reka smiðshöggið á þessa löngu vegferð og ljúka þessari ítarlega undirbúnu breytingu á stjórnarskránni.
Félags frjálslyndra jafnaðarmanna stendur að sameiginlegum fundi aðildarfélaga Samfylkingarinnar í Reykjavík um þetta atriði, og fleiri sem tengjast stjórnarskrárkosningunni næsta laugardag. Fundurinn verður haldinn kl. 20:30 miðvikudaginn 17. október að Hallveigarstíg 1, 2. hæð. Sérstakir gestir verða stjórnlagaráðsfulltrúarnir Þórhildur Þorleifsdóttir og Þorkell Helgason sem munu fjalla um inntak spurninganna sem varða lagðar fyrir þjóðina og vinnuna á bak við þær. Þá mun Valgerður Bjarnadóttir alþingismaður fjalla um mikilvægi kosninganna 20. október.